top of page
About

Vertu velkomin/nn í hóp fólks sem hefur áhuga á meðvirkni og þeim óteljandi birtingarmyndum sem hún hefur. Við þekkjum vel hvaða afleiðingar meðvirknin getur haft og þau erfiðu verkefni mjög margir þurfa að takast á við á lífsleiðinni á meðan aðrir eru blessunarlega lausir við. Eftir áratuga sjálfsvinnu í gegnum þykkt og þunnt, störf við ráðgjöf og meðferðarvinnu ásamt sérfræðimenntun á sviði meðvirkni og áfalla, hefur safnast upp mikil reynsla úr okkar persónulega lífi og lífi annarra sem við viljum miðla til þín. Tilgangurinn með Meðvirknipodcastinu er að þú getir verið hluti af sívaxandi hópi fólks sem vill dýpri skilning á sjálfum sér og öðrum, fá góðar hugmyndir byggðar á reynslu og öðlast frelsi frá meðvirkninni. Þetta sameiginlega ferðalag gæti orðið það verðmætasta sem þú hefur farið í!

Umfjöllunarefnin eru margskonar og byggja bæði á faglegum grunni og raunverulegum aðstæðum úr hversdagsleikanum þar sem við tökumst á við svo mörg andlit meðvirkninnar. Við snertum á raunverulegum orsökum hennar og einkennum. Vanræksla, ofbeldi, höfnunarótti, kvíði, þunglyndi, markaleysi, neikvæðni, alvarleg streita, kulnun, lágt sjálfsvirði, einmannaleiki, alkóhólismi, vímuefnaröskun, ósanngjörn hlutverk innan fjölskyldunnar, átök í nánum samböndum, stjórnleysi, skömm, áhugaleysi, yfirfærðar tilfinningar, reiði og sorg eru á meðal fjölmargra atriða sem koma til sögunnar. Við vitum og skiljum vel að margir finna sterkar tilfinningar þegar fjallað er um orsakir og afleiðingar meðvirkninnar. Það er því líka mikilvægt að þú vitir að við förum ekki síður í gegnum leiðir til að auka kærleika og nánd í eigin garð, að styrkjast, að setja sér og þá öðrum mörk, að öðlast ríkara sjálfstraust, innihaldsríkari samskipti, nánari sambönd, aukið hugrekki, tilgang og gleði í lífinu.

Það skiptir okkur máli að podcastið hafi raunveruleg og djúp áhrif til hins betra. Það er mikill áhugi á meðvirkni og við ætlum ekki bara að fjalla um hana frá ýmsum hliðum heldur líka að styðja hlustendur með gagnlegum hugmyndum og verkfærum sem reynslan hefur sannað að skipta máli. Það má segja að umfjöllunin skiptist í eftirfarandi þætti:

Einlægt og kærleiksríkt samtal og samfélag sem byggir meðal annars á persónulegum reynslusögum

Uppbyggileg fræðsla sem byggir á yfirgripsmikilli menntun og reynslu á sviði meðvirkni og áfalla

Gagnleg verkefni og verkfæri fyrir persónulegan vöxt

Skapandi nálgun sem getur hjálpað þér að sjá lífið og tilveruna í nýju ljósi

Áskrift að Meðvirknipodcastinu kostar aðeins 1.500 krónur á mánuði og innifalið í því er aðgangur að öllum þáttum sem komnir eru ásamt nýjum þáttum sem koma með reglulegum hætti. Hugleiðslur þar sem markmið er að umbreyta meðvirkri líðan í meðvitund með kærleika að leiðarljósi. Ofan á þetta allt býðst þér ókeypis aðgangur að sérstökum netnámskeiðum sem boðið er upp á fyrir áskrifendur ásamt fleiri góðum gjöfum. Það er engin binditími, þér er velkomið að hætta í áskrift þegar þú vilt.

 

Vertu velkomin í góðan hóp – okkur þætti vænt um að hafa þig með okkur 

bottom of page